Tuesday, December 17, 2013

Stóra ástin er af mörgum talið eitt albesta lag Ljótu hálfvitanna. Það hefur ekki verið mikið flutt á tónleikum samt, enda hljóðfæraumstangið kappnóg þó ekki bætist við sérstilltir gítarar sem Feita, eins og lagið er oftast kallað, krefst. Dálítið spes að setja það á dagskrá núna, með gítarhetjuna Baldur í Suður-Ameríku, en hva, ég hlýt að redda þessu. Sérstaklega með Árna Salomonsson á kantinum til að kenna mér sérviskuleg gripin. Lokaæfingin fór einmitt fram í nótt, í stofunni heima á Uppsalaveginum á Húsavík, að viðstaddri móður minni, sem aldrei auðnaðist að sjá Hálfvitana meðan hún lifði. Hún virtist skemmta sér hið besta, ekki síst af því að hún fékk að reykja í stofunni eins og í gamla daga. Árni fylgdist grannt með frammistöðu minni og kann ég honum bestu þakkir fyrir hjálpina. Gott að vakna eftir góða æfingu með góðu fólki.