Sunday, December 21, 2014

Í nýjustu mynd sinni hverfur Woody Allen á fornar ærslaslóðir. Fyrir misskilning lendir hópur fólks á leið í brúðkaup í nokkurskonar steinaldarmanna-bootcamp-búðum þar sem fólk er látið tileinka sér lífshætti, tungumál og veiðiaðferðir forfeðra sinna. Með harðri hendi. þetta gengur nú svona og svona hjá veimiltítulegu Woddy-týpunum, en að lokum sleppa þau og halda áfram för sinni í veisluna, siglandi um læki og síki á stóru seglskipi. Einna skrítnast er samt að leikstjórinn skyldi velja myndinni nafnið „Sleeper“, en hann hefur áður gert mynd með því nafni.

Um borð í skipinu eru að sjálfsögðu skemmtidagskrá og í skipsbandinu eru hvorki meira né minna en tveir bassaleikarar. Hápunktur dagskrárinnar er æsilegt bassaeinvígi þar sem Loftur og Jón Baldvin Hannibalsson reyna með sér í fingrafimi og hugmyndaauðgi. Úrslit lágu ekki fyrir þegar vekjaraklukka eiginkonunnar vakti mig.

Friday, December 12, 2014

Fyrirfram hefði maður ekki endilega giskað á að söngdúett Sævars Sigurgeirssonar og Guðmundar Brynjólfssonar yrði vinsælasta númerið í viðamikilli kabarettdagskrá á nýopnuðu kaffihúsi í skrúðgarði Húsavíkur, þar sem áður stóð kotið Skógargerði. En svona er þetta nú samt. Eitthvað fékk maður að taka lagið, en aðallega þó að flytja til míkrófónstanda fyrir stjörnurnar þegar þeir fluttu lagið sitt milli borða. Verst að hafa ekki munað takt af þessum mikla hittara þegar ég vaknaði.

Wednesday, October 15, 2014

Að leikstýra Brecht er ekki heiglum hent. Hvað þá Mutter Courage, eins og dæmin sanna. Það kom því nokkuð flatt upp á þátttakendur í fyrsta samlestri verksins að fleiri en einn viðstaddra bauðst til að leysa Sigrúnu Valbergsdóttur af í brúnni. Þeirra á meðal var Helga Ágústsdóttir. Þegar Sigrún gerði sig líklega til að víkja sæti fyrir valkyrjunni úr Freyvangsleikhúsinu runnu tvær grímur á hvort okkar hjónanna. Eitt var nú að við hefðum haldið að Helga væri dýrmætur kraftur í leikhópinn og flestum líklegri til að hafa leikstíl framandgervingarinnar á valdi sínu, en svo verður að viðurkennast að bæði Hulda og ég vorum meðal þeirra sem ásældumst leikstjórastólinn. Ég veit ekki með Huldu en ég var satt að segja farinn að ókyrrast talsvert þegar ég vaknaði.

Tuesday, September 23, 2014

Páll Ásgeir Ásgeirsson hélt gott partí í nótt í nýja húsi þeirra hjóna á Hjarðarholtstúninu á Húsavík. Veitingar reyndar svolítið einhæfar, ekkert nema grafinn og reyktur lax. En samt – partí. Þarna vorum við, hluti af Hálfvitunum, í miklu stuði. Það fór reyndar aðeins orkan úr samkvæminu þegar Baldur ákvað að flytja Dætrasonalagið góða, „Bronsið í Brú“, láta Ármann spila á gítar, sem hann kunni ekki, né heldur Baldur sjálfur textann. Þegar Ármann ákvað að bæta fyrir klunnið með að gera sér lendaskýlu úr graflaxi og stíga eggjandi dans var svo kominn tími til að rísa úr rekkju og nudda stýrur úr augum.

Monday, July 14, 2014


Minn ágæti vinur Egill Gunnarsson skrifar reglulega pistla á Fésbók þar sem hann fer í saumana á hljómagangi frægra popplaga og bendir ó- eða líttinnvígðum í töfraheima hljómfræðinnar hvað þar er á seyði. Mér fannst því kjörið að skrifa honum bréf um mitt eftirlætishljómferli, nefnilega I – IV – II(dúr) – I. Verst að þegar ég bankaði upp á átti ég eftir að skrifa það, svo ég fékk tölvu lánaða og settist við. Og sat lengi, því þetta var mögulega hæggengasta vél síðan Sinclair Spectrum var á dögum. Allt hafðist þetta þó að lokum og meðan ég ræddi skógarmítla við heimilismenn sneiddi Egill niður rúgbrauð og reyktan silung enda ættarmót framundan hjá hans fólki. Það var ekki fyrr en tvær gríðarstórar býflugur mættu til leiks og gerðu sig heimakomnar að ég vaknaði, mest í sjálfsvörn. Prófaði hljómaganginn og hann er allt öðruvísi en í draumheimum, og mun litlausari. Eins og flest.

Thursday, May 29, 2014


Af hverju í ósköpunum mætir enginn á reunion-tónleika með Utangarðsmönnum í Félagsheimili Kópavogs? Segi og skrifa enginn! Tómur salur blasir við. Er það vegna þess að ég er að spila með þeim og Hálfvitarnir eiga að hita upp? Hápunkturinn klárlega að spila Where are the Bodies, og hæfæfa Mike Pollock.

Nei, ætli það sé ekki meira vegna þess að þetta er bara æfing, tónleikarnir byrja að henni lokinni og fullt af fólki bíður við dyrnar sem húsvörðurinn Baldur Ragnarsson opnar ekki fyrr en bandið er búin að fá sér að borða. Gömlu kempurnar eru í miklu stuði og segja bransasögur hver í kapp við annan.

Meðan Bubbi og félagar fá sér samlokur diskúterum við hálfvitar hvað við eigum að spila. Hvað er viðeigandi? Kannski ekki endilega Ballöðuna um Bubba Morthens. Kannski bara eintóm sjómannalög (Utangarðsmenn ætla að spila slatta af Ísbjarnarblús ef marka má æfinguna). Jæja, það er komið fólk í salinn og þegar ég rumska er ljóst að upphitunarbandið er frekar lélegt, en nokkuð skemmtilegt - sennilega fyrirboði um hvernig Rosen-tónleikarnir verða um helgina. En hvílík vonbrigði að vakna áður en sjálfir konungar íslenska pönkrokksins telja í Hrognin er að koma.

Friday, May 23, 2014

Það kom ekki mikið á óvart að það væri stappfullt á fyrirlestri sjálfs Nóbelsskáldsins í stofu 101 í Odda. Skrítnara var þó hvað margir voru sífellt að gjamma fram í og biðja hann um að herma eftir allskyns einkennilegu fólki sem HKL (og þá væntanlega biðjendurnir) þekktu vel. Halldór tók misvel í þetta, en þegar Guðrún Halla Jónsdóttir, sem hafði sig mjög í frammi, bað hann um að bregða sér í gerfi Guðrúnar frá Stað (sem ég veit ekkert hver er) þá slengdi kallinn fram vísu með raddblæ kerlingar við mikinn fögnuð.

Vísan var afleit sem slík og engin leið að muna hana orðrétt í draumi, en henni á Staðar-Gunna að hafa kastað fram þegar gárungar í sveitinni héldu fram að hjartað í henni væri á vitlausum stað, út frá einhverjum fæðingarbletti skildist mér. Inntakið var að hjartað væri ca. metra frá jörðu þegar hún tæki upp rófur. Hálfgert bull, en pínu póetískt, fannst mér þegar ég vaknaði. Halla var a.m.k kát og Halldór stoltur af hermikrákuhæfileikum sínum.

Enda má segja að þjóðin eigi það nú alveg inni hjá honum að hann fái að skopast með talanda fólks.

Tuesday, May 13, 2014


Nú held ég að Rúnar Guðbrandsson sé búinn að missa það. Að byggja næstu sýningu sína á einhverri kenningu um talnafræði er nógu slæmt, en að kenningin byggi á gersamlega ónothæfu hugtaki um náttúrulegar tölur (eða voru það rauntölur?) minni en núll þýðir að þetta verður aldrei barn í brók. Ég reyndi að koma vitinu fyrir hann og sýna honum með hjálp frá bæði Gottlob Frege og Google frænda að hugmyndin væri byggð á sandi, en það var ekki fyrr en ég komst í tölvuna hans að ég sá að hann var fullkomlega meðvitaður um að þetta væri tóm steypa. Allt eintómt grín og ég vaknaði glaður.

Wednesday, April 9, 2014

Heldur brá mér í brún þegar ég kom að skrifborðinu mínu. Í stað hinnar hefðbundnu pappírsóreiðu var þar nú hrúga af hálsbindum, flestum smekklegum. Fyrst hélt ég að sessunautur minn, ofurhönnuðurinn Stefán Einarsson, væri með eitthvað spaug í gangi en fljótlega kom þar að nýbyrjaður starfsmaður sem ég er því miður ekki búinn að læra nafnið á. Í ljós kom að hann er bróðir sjónvarpsgarpsins Boga Ágústssonar sem starfs síns vegna þarf reglulega að endurnýja hálsbindasafn sitt. Nú vildi hann sem sé gefa leikfélaginu Hugleik góðan slatta sem höfðu birst of oft í fréttasettinu. Höfðinglega gert! Formleg afhending fór síðan fram rétt áður en ég vaknaði. Hún var látlaus og Bogi sjálfur viðstaddur.

Saturday, February 8, 2014

Vissuð þið að dauðarokkssveitin Carcass hefur gefið út plötu sem heitir Slayel? Já, með l-i. Eins og málmhaus með talgalla sé að reyna að segja Slayer. Það er fyndið. Svo fyndið að þegar við Eggert Hilmarsson komumst að þessu skrifuðum við skets um málið. Hann var fyndinn. Og svo sömdum við lag upp úr sketsinum. Það var fyndið. Og tókum það upp með Jóhönnu Guðrúnu. Snæbjörn Ragnarsson og Kristín Eysteinsdóttir, nýráðinn Borgarleikhússtjóri veltust um af hlátri. Ég vaknaði við hlátursrokurnar í morgun. Dagar hafa byrjað verr.

Tuesday, February 4, 2014

Lengi hefur staðið til að fjölga duglega í Ljótu hálfvitunum. Eftir tiltölulega snarpan fund var ákveðið að bjóða í bandið þeim Austfjörð-bræðrum, Ævari og Hólmgeiri, enda bræðrapör reynst hljómsveitinni vel. Einnig var ákveðið að kalla til Bjarna þann sem á Húsavík hefur viðurnefnið Besti-hestur. Bæði er gott að hafa þroskaðan tenór í svona sveit og svo má reikna með að lífstíll Bjarna geri aðlögunina auðvelda.


Blásið var til fyrstu æfingar með fullskipaðri sveit að morgni dags og til stóð að fara í stúdíó síðar um daginn og endurgera nokkra standarda af fyrstu plötunni. Minna varð þó úr en til stóð. Æfingahúsnæðið deilir nefnilega inngangi og sameiginlegum rýmum með júdóskóla fyrir leikskólabörn sem þýðir að ekki má vera með hávaða á morgnana, og reyndar er nærvera okkar ekki vel séð innan um sakleysingjana. Fyrir vikið vaknaði ég áður en hin nýja 12-manna Hálfvitasveit taldi í.

Tuesday, January 14, 2014

Heldur vorum við kvíðnir í salnum í litla Félagsheimilinu í Öxnadal: Ármann, Sævar og ég. Vissum að leikritið sem leikhópur úr Svarfaðardalnum var að fara að frumsýna var í rýrara lagi.


Þegar sýningin hófst kom svo í ljós að þar hafði jafnvel verið kastað enn hraustlegar til höndunum í uppfærslunni sjálfri og stóð ekki steinn yfir steini, þrátt fyrir kanónur á borð við Þráin Karlsson við leikstjórapúltið og Herdísi Rögnu og Erling Sigurðarson frænda minn á sviðinu. Verst var þó að ekkert þak var á húsinu og því engin leið að koma við ljósum til að fela hörmungina. Enda var sýningu hætt snarlega í hléi og gripum við Ljótu hálfvitarnir tækifærið, stilltum upp græjunum okkar og hófum upptöku á næstu plötu, með góðan liðsauka: Gunnar greifatrommara á banjó.


Tæknilegir örðugleikar stöðvuðu þá vinnu og því brast á frumsýningarpartí, en þegar Ingunn Ásdísardóttir ákvað að halda ræðu yfir mér um að Sævar vinur minn væri liðónýtur hagyrðingur sem skildi ekki lögmál stuðlasetningar var fáránleikinn kominn yfir öll mörk og tímabært að vakna til þessa lognkyrra miðvikudags.