Saturday, February 8, 2014

Vissuð þið að dauðarokkssveitin Carcass hefur gefið út plötu sem heitir Slayel? Já, með l-i. Eins og málmhaus með talgalla sé að reyna að segja Slayer. Það er fyndið. Svo fyndið að þegar við Eggert Hilmarsson komumst að þessu skrifuðum við skets um málið. Hann var fyndinn. Og svo sömdum við lag upp úr sketsinum. Það var fyndið. Og tókum það upp með Jóhönnu Guðrúnu. Snæbjörn Ragnarsson og Kristín Eysteinsdóttir, nýráðinn Borgarleikhússtjóri veltust um af hlátri. Ég vaknaði við hlátursrokurnar í morgun. Dagar hafa byrjað verr.

Tuesday, February 4, 2014

Lengi hefur staðið til að fjölga duglega í Ljótu hálfvitunum. Eftir tiltölulega snarpan fund var ákveðið að bjóða í bandið þeim Austfjörð-bræðrum, Ævari og Hólmgeiri, enda bræðrapör reynst hljómsveitinni vel. Einnig var ákveðið að kalla til Bjarna þann sem á Húsavík hefur viðurnefnið Besti-hestur. Bæði er gott að hafa þroskaðan tenór í svona sveit og svo má reikna með að lífstíll Bjarna geri aðlögunina auðvelda.


Blásið var til fyrstu æfingar með fullskipaðri sveit að morgni dags og til stóð að fara í stúdíó síðar um daginn og endurgera nokkra standarda af fyrstu plötunni. Minna varð þó úr en til stóð. Æfingahúsnæðið deilir nefnilega inngangi og sameiginlegum rýmum með júdóskóla fyrir leikskólabörn sem þýðir að ekki má vera með hávaða á morgnana, og reyndar er nærvera okkar ekki vel séð innan um sakleysingjana. Fyrir vikið vaknaði ég áður en hin nýja 12-manna Hálfvitasveit taldi í.