Thursday, May 29, 2014


Af hverju í ósköpunum mætir enginn á reunion-tónleika með Utangarðsmönnum í Félagsheimili Kópavogs? Segi og skrifa enginn! Tómur salur blasir við. Er það vegna þess að ég er að spila með þeim og Hálfvitarnir eiga að hita upp? Hápunkturinn klárlega að spila Where are the Bodies, og hæfæfa Mike Pollock.

Nei, ætli það sé ekki meira vegna þess að þetta er bara æfing, tónleikarnir byrja að henni lokinni og fullt af fólki bíður við dyrnar sem húsvörðurinn Baldur Ragnarsson opnar ekki fyrr en bandið er búin að fá sér að borða. Gömlu kempurnar eru í miklu stuði og segja bransasögur hver í kapp við annan.

Meðan Bubbi og félagar fá sér samlokur diskúterum við hálfvitar hvað við eigum að spila. Hvað er viðeigandi? Kannski ekki endilega Ballöðuna um Bubba Morthens. Kannski bara eintóm sjómannalög (Utangarðsmenn ætla að spila slatta af Ísbjarnarblús ef marka má æfinguna). Jæja, það er komið fólk í salinn og þegar ég rumska er ljóst að upphitunarbandið er frekar lélegt, en nokkuð skemmtilegt - sennilega fyrirboði um hvernig Rosen-tónleikarnir verða um helgina. En hvílík vonbrigði að vakna áður en sjálfir konungar íslenska pönkrokksins telja í Hrognin er að koma.

Friday, May 23, 2014

Það kom ekki mikið á óvart að það væri stappfullt á fyrirlestri sjálfs Nóbelsskáldsins í stofu 101 í Odda. Skrítnara var þó hvað margir voru sífellt að gjamma fram í og biðja hann um að herma eftir allskyns einkennilegu fólki sem HKL (og þá væntanlega biðjendurnir) þekktu vel. Halldór tók misvel í þetta, en þegar Guðrún Halla Jónsdóttir, sem hafði sig mjög í frammi, bað hann um að bregða sér í gerfi Guðrúnar frá Stað (sem ég veit ekkert hver er) þá slengdi kallinn fram vísu með raddblæ kerlingar við mikinn fögnuð.

Vísan var afleit sem slík og engin leið að muna hana orðrétt í draumi, en henni á Staðar-Gunna að hafa kastað fram þegar gárungar í sveitinni héldu fram að hjartað í henni væri á vitlausum stað, út frá einhverjum fæðingarbletti skildist mér. Inntakið var að hjartað væri ca. metra frá jörðu þegar hún tæki upp rófur. Hálfgert bull, en pínu póetískt, fannst mér þegar ég vaknaði. Halla var a.m.k kát og Halldór stoltur af hermikrákuhæfileikum sínum.

Enda má segja að þjóðin eigi það nú alveg inni hjá honum að hann fái að skopast með talanda fólks.

Tuesday, May 13, 2014


Nú held ég að Rúnar Guðbrandsson sé búinn að missa það. Að byggja næstu sýningu sína á einhverri kenningu um talnafræði er nógu slæmt, en að kenningin byggi á gersamlega ónothæfu hugtaki um náttúrulegar tölur (eða voru það rauntölur?) minni en núll þýðir að þetta verður aldrei barn í brók. Ég reyndi að koma vitinu fyrir hann og sýna honum með hjálp frá bæði Gottlob Frege og Google frænda að hugmyndin væri byggð á sandi, en það var ekki fyrr en ég komst í tölvuna hans að ég sá að hann var fullkomlega meðvitaður um að þetta væri tóm steypa. Allt eintómt grín og ég vaknaði glaður.