Wednesday, November 20, 2013

Var það gott karríermúv hjá Hjördísi systur minni að hætta á LSH og leita sér að vinnu sem kirkjuorganisti í Kópavogi? Ekki viss um það, en þegar hún tekur ákvarðanir (sem hún gerir ekki fyrr en í fulla hnefana) þýðir ekkert að standa í vegi. Það var því sjálfsagt að verða við bón hennar um að hringja í Dagnýju Pétursdóttur, vinkonu mína úr menntaskóla og kantor í Suður-Þingeyjarsýslu, og spyrja ráða. Hún mátti síðan ekkert vera að því að aðstoða okkur, enda önnum kafin við að undirbúa fyrsta kirkjuorganista-idolið. Þar með fjaraði undan áhuga Hjördísar, draumurinn búinn, og við bæði komin til vinnu okkar eins og venjulega.

Monday, November 11, 2013

Loksins loksins fékk ég tækifæri til að gera útvarpsauglýsingu byggða á meistarastykki Oxsmár, Kitty klára! Ég lagði líf og sál í verkefnið og var enn að fá hugmyndir þar sem ég stóð við míkrófóninn til að taka upp skilaboðin sem áttu að nýta snilld lagsins til að koma boðskapnum á framfæri. Ég lét óþolinmæði upptökustjórans ekkert pirra mig, en það var enginn annar en æskuvinur minn og Marillion-aðdáandi nr. eitt, Jóhannes Sigmundsson, þarna að stíga sín fyrstu skref í bransanum að ég tel. Ekki fylgdi sögunni hvað átti að auglýsa með þessari aðferð, en fullvíst má telja að viðkomandi vara eða þjónusta hefur slegið í gegn í draumheimum eftir að ég yfirgaf þá núna í morgunsárið.