Monday, July 14, 2014


Minn ágæti vinur Egill Gunnarsson skrifar reglulega pistla á Fésbók þar sem hann fer í saumana á hljómagangi frægra popplaga og bendir ó- eða líttinnvígðum í töfraheima hljómfræðinnar hvað þar er á seyði. Mér fannst því kjörið að skrifa honum bréf um mitt eftirlætishljómferli, nefnilega I – IV – II(dúr) – I. Verst að þegar ég bankaði upp á átti ég eftir að skrifa það, svo ég fékk tölvu lánaða og settist við. Og sat lengi, því þetta var mögulega hæggengasta vél síðan Sinclair Spectrum var á dögum. Allt hafðist þetta þó að lokum og meðan ég ræddi skógarmítla við heimilismenn sneiddi Egill niður rúgbrauð og reyktan silung enda ættarmót framundan hjá hans fólki. Það var ekki fyrr en tvær gríðarstórar býflugur mættu til leiks og gerðu sig heimakomnar að ég vaknaði, mest í sjálfsvörn. Prófaði hljómaganginn og hann er allt öðruvísi en í draumheimum, og mun litlausari. Eins og flest.