Friday, November 20, 2015

Þessar leiklistarhátíðir eru allar eins. Hátíðardinnerinn á þessari, í Eistlandi, skar sig ekkert að ráði frá öðrum utan tvennt: Íslenska hópnum hafði verið vísað til sætis í ógurlegum hvítum lúxusbíl, sem aukinheldur stóð yst í salnum þar sem gólfið byrjaði að halla í átt til útidyranna og að sjálfsögðu fórum við eina salibunu út á götu. Og svo voru þarna ókjörin öll af nótnabókum og söngheftum, þar á meðal helstu lög Bubba Morthens. Svo við gripum gítara og mandólín og hófum upp raust okkar. Partíið leystist svo upp þegar séra Oddur sýndi á sér fararsnið og við kvöddum hann með hinum ódauðlegu línum:

Það er enginn fiskur í dag,
þér getið farið heim og slappað af.
Tekið yður sturtu eða farið í bað.

Við þessar þéringar vaknaði ég.

Saturday, August 8, 2015

Það væri örugglega gaman að skoða sig um í Santiago, höfuðborg Chile, ef hún væri ekki svona fáránlega illa skipulögð. Vorum við Guðrún Eysteinsdóttir​ þó með hinn spænskumælandi Guðmund Erlingsson​ með okkur til að spyrja til vegar. Engu að síður vorum við búin að villast um ranghala í tveimur yfirgefnum barnaskólum áður en við fundum eitthvað lífsmark. Sem fólst reyndar einungis í risastórri jólavörubúð. Vissulega hefði verið fyndið að koma heim frá Suður-Ameríku með jólaskraut, en það var bara svo helvíti ljótt allt, svo við snerum tómhent til skips. Það var mun auðveldara að fá leiðbeiningar til baka. Við þurftum bara að teikna mynd af farkostinum – víkingaskipi með sjóræningjafána – og allir vissu hvað við var átt. Það er semsagt líka þannig í draumheimum.

Saturday, May 23, 2015

Hvílíkt lán að RÚV skuli eiga upptöku af hinni rómuðu uppfærslu Þjóðleikhússins á Fiðlaranum á þakinu frá 1969! Róbert og félagar standa svo sannarlega undir nostalgískum væntingunum. Það sama verður kannski ekki sagt um propsdeildina. Óttalega metnaðarlaust að brúka notuð umslög með merki leikhússins í sýningunni, og það án þess að gefa þeim einu sinni kírillískar eða jiddískar áletranir. Og já, bréfasendingar eru fyrirferðarmeiri í Fiðlaranum en ykkur minnti. Steininn tók þó úr þegar Tevye fór að gefa kúnni og veiddi töðuna upp úr stórum bréfpoka sem búinn var til úr tveimur svona umslögum, samlímdum á köntunum með hvítu málningarteipi! Það hefði verið fróðlegt að lesa áletranirnar á þessum „leikmunum“, en af því gat ekki orðið. Ég sef ekki með gleraugu.

Friday, March 20, 2015


Haldiði ekki að gömlu brýnin í Iron Maiden hafi verið að landa sigri í enska Popppunktinum! Æsispennandi lokaviðureign við eitthvað nóboddíband sem náði góðri forystu í upphafi með því að negla fyrstu vísbendingaspurninguna. Þekktu semsagt hina obskjúr íslensku þjóðlagaproggsveit Þursaflokkinn í fyrstu bendingu. En seiglan hefur löngum verið aðalsmerki þeirra Steve og Bruce sem lönduðu þessu á lokametrunum. Því miður vaknaði ég áður en ég bar kennsl á þriðja Járnfrúarmanninn – en hlýtur það ekki að hafa verið Eddie? Seigir popplímheilar, Eddarnir.

Tuesday, March 17, 2015

Þröngt á þingi í sminkherbergi RÚV og handagangur í öskjunni. Fyrir utan okkur Kiljufólk er þarna hópur „amatöra“ að fara að leika í sjónvarpsleikriti, og í tilefni öskudagsins eru allir í afkáralegum búningum, einnig við „bókmenntaelítan“. Mér finnst þetta heldur fyrir neðan mína virðingu allt saman, en er þó afar kátur. Ég hafði nefnilega fundið á glámbekk eintak af Samvinnunni frá 1977 og þar í svona grín-heimskort þar sem heimshlutarnir eru skírðir upp á nýtt frá „lókal“ sjónarhóli. Og viti menn: Rússland og Pólland hafa fengið nafnið „K.Þ. – Finnur Kristjánsson“ til heiðurs afa mínum kaupfélagsstjóranum, væntanlega vegna viðskipta við austurblokkina. Ég  hlakka mjög til að veifa þessu framan í Egil Helgason, grúskarann þann, en hafði lagt blaðið frá mér augnablik og þegar ég seilist í það aftur er ein leikkonan búin að taka það, snýta sér í það og henda því. Verst að tímarit.is virkar ekki í draumheimum.

Thursday, March 12, 2015

Þjóðsöngvar eru skemmtilegir (ef „skemmtilegir“ er orðið sem ég var að leita að, sem það er ekki.) Hví þá ekki að búa til syrpu af tóndæmum úr þeim öllum, í stafrófsröð? Jújú, það er nú eitthvað sem Ljótu hálfvitunum fannst svo góð hugmynd að þeir hófust þegar handa, og ákváðu líka að þetta yrði allt gert „unisono“ – allir spila melódíuna og hljómarnir geta fokkað sér. Athyglisbrestur bandsins varð reyndar til þess að við vorum varla búnir að splæsa saman lög Afganistans og Albaníu þegar Eggert​ fékk aðra hugmynd: Að taka þýska þjóðsönginn og semja við hann rætna níðtexta um íslenskt fjölmiðla- og frægðarfólk. Vorum að leita að einhverju nógu krassandi rímorði við „Hirst“ þegar Þórdís Elva​ sagði stopp. Á þeirri forsendu að hljóðsetningin yrði of dýr, sem var svo glötuð átylla að ég hreinlega vaknaði. En þjóðsöngvasyrpan er geymd hugmynd en ekki gleymd.

Saturday, February 14, 2015

Gaman að vera kóngur í ríki sínu. Og mikið var það fallegt af íbúum hins fagra og skógi vaxna Maine-ríkis að slíta sig frá Ríkjasambandi Norður-Ameríku, lýsa yfir sjálfstæði og velja okkur hjónin til að taka þar við völdum. Þetta varð reyndar ekki mjög langt skeið en hennar hátign @hulda drottning náði þó að koma einu til leiðar: að nýjasti smellur Beyoncé Knowles yrði lækkaður um hálftón, úr A í Bb á yfirráðasvæði okkar. Sem er reyndar hálftóns hækkun. Kannski var það þessi tónfræðivilla sem varð til þess að valdaskeið okkar og sjálfstæði Meins varð svona stutt. Við ríktum aðeins yfir nyrsta hluta Nýja-Englands í nokkrar mínútur um miðja nótt og lögðum síðan sjálfviljug niður völd með friði og spekt. Óvíst að íbúarnir hafi einusinni tekið eftir þessu.

Saturday, January 3, 2015

Þá veit maður hvað Friðrika Benónýs ætlar að taka sér fyrir hendur „post-fréttablað“. Verð að segja að hún var bara mjög sannfærandi á rythmagítarnum í pönkhljómsveitinni á sviðinu í Félagsheimili Húsavíkur, bæði spil- og lúkklega. Skiljanlega höfðu þau samt ekki haft tíma til að viða að sér backline-græjum heldur höfðu tekið hálfvitadótið sem þar var geymt traustataki. Þar á meðal trommusettið grænköflótta sem Jón Geir smíðaði handa okkur í árdaga. Pönkararnir höfðu meira að segja fundið tomtom-trommuna sem er búin að vera týnd frá því við eignuðumst settið. Þannig að þetta var win-win – Hálfvitar fengu glötuðu trommuna og bandið hennar Rikku gat troðið upp. Voru enn að þegar ég vaknaði.