Friday, November 25, 2016

Hulda var að koma heim frá útlöndum og hafði heldur betur sögur að segja. Aðallega frá flugferðinni heim þar sem sjálfur Gene Simmons var á vappi. Að sjálfsögðu slapp sá athyglissjúki skröggur í hljóðkerfið og skemmti farþegum með gamansögum af Ace að skandalísera. Já og svo reyndi Gene að eigna sér hugmyndina að baki einhverjum obskjúr haitískum trúarbrögðum, en það var nú allt frekar langsótt, sem vonlegt er. Við Þorleifur Arnarson skemmtum okkur vel yfir endursögn Huldu af þessum performans Kissbassaleikarans meðan við ösluðum snjó í torkennilegum undirgöngum á leið eitthvað sem ekki lá ljóst fyrir hvað var þegar föstudagurinn hófst formlega í boði vekjaraklukkunnar.

Monday, April 4, 2016

Hversu djörf var sú ákvörðun að fá mig til að semja nýjan einkennis- og hvatningarsöng í tilefni af EM í fótbolta? Sennilega skrítnasta hugmynd sem Eiður Arnarsson hefur fengið, síðan um árið þegar hann bað Ljótu hálfvitana að gera ábreiðuplötu með lögum Gylfa Ægissonar. Enda klúðraði ég pepplaginu glæsilega. Gott lag reyndar, en meira svona írónískt, enda fóru samfélagsmiðlar á hliðina og sökuðu mig um elítuhroka og almenn andstyggilegheit. Plebbar. En Eiður var sáttur, enda smekkmaður hinn mesti, á tónlist ef ekki á knattspyrnulið.

Hinsvegar gekk brösuglega að undirbúa frumflutning lagsins „læf“. Kassagítar Hálfvitanna,hin þrautseiga „Tía“, var loksins orðin of tjónuð og flutt í stóru hljóðfæraverslunina skýjum ofar. Úr varð að nota tækifærið og gefa Gums nýjan stálstrengjagítar í afmælisgjöf, sem síðan myndi nýtast bandinu. Þá kom sér vel að nýbúið var að breyta Ingvarsbúð í stóra og vel búna hljóðfæraverslun á tveimur hæðum og með ótal deildum. Þarna voru fagott og fiðlur upp um alla veggi, en minna bar á gíturum. Eftir langa leit fundust nokkrir klassískir undir borði, en bara einn þjóðlaga – heldur óálitlegur gripur sem gítarfróður kúnni hvíslaði að mér að væri ómerkileg verksmiðjuframleiðsla frá Lúxemborg. Við að heyra það orð hrökk ég upp, lái mér hver sem vill.