Sunday, December 21, 2014

Í nýjustu mynd sinni hverfur Woody Allen á fornar ærslaslóðir. Fyrir misskilning lendir hópur fólks á leið í brúðkaup í nokkurskonar steinaldarmanna-bootcamp-búðum þar sem fólk er látið tileinka sér lífshætti, tungumál og veiðiaðferðir forfeðra sinna. Með harðri hendi. þetta gengur nú svona og svona hjá veimiltítulegu Woddy-týpunum, en að lokum sleppa þau og halda áfram för sinni í veisluna, siglandi um læki og síki á stóru seglskipi. Einna skrítnast er samt að leikstjórinn skyldi velja myndinni nafnið „Sleeper“, en hann hefur áður gert mynd með því nafni.

Um borð í skipinu eru að sjálfsögðu skemmtidagskrá og í skipsbandinu eru hvorki meira né minna en tveir bassaleikarar. Hápunktur dagskrárinnar er æsilegt bassaeinvígi þar sem Loftur og Jón Baldvin Hannibalsson reyna með sér í fingrafimi og hugmyndaauðgi. Úrslit lágu ekki fyrir þegar vekjaraklukka eiginkonunnar vakti mig.

Friday, December 12, 2014

Fyrirfram hefði maður ekki endilega giskað á að söngdúett Sævars Sigurgeirssonar og Guðmundar Brynjólfssonar yrði vinsælasta númerið í viðamikilli kabarettdagskrá á nýopnuðu kaffihúsi í skrúðgarði Húsavíkur, þar sem áður stóð kotið Skógargerði. En svona er þetta nú samt. Eitthvað fékk maður að taka lagið, en aðallega þó að flytja til míkrófónstanda fyrir stjörnurnar þegar þeir fluttu lagið sitt milli borða. Verst að hafa ekki munað takt af þessum mikla hittara þegar ég vaknaði.