Tuesday, December 17, 2013

Stóra ástin er af mörgum talið eitt albesta lag Ljótu hálfvitanna. Það hefur ekki verið mikið flutt á tónleikum samt, enda hljóðfæraumstangið kappnóg þó ekki bætist við sérstilltir gítarar sem Feita, eins og lagið er oftast kallað, krefst. Dálítið spes að setja það á dagskrá núna, með gítarhetjuna Baldur í Suður-Ameríku, en hva, ég hlýt að redda þessu. Sérstaklega með Árna Salomonsson á kantinum til að kenna mér sérviskuleg gripin. Lokaæfingin fór einmitt fram í nótt, í stofunni heima á Uppsalaveginum á Húsavík, að viðstaddri móður minni, sem aldrei auðnaðist að sjá Hálfvitana meðan hún lifði. Hún virtist skemmta sér hið besta, ekki síst af því að hún fékk að reykja í stofunni eins og í gamla daga. Árni fylgdist grannt með frammistöðu minni og kann ég honum bestu þakkir fyrir hjálpina. Gott að vakna eftir góða æfingu með góðu fólki.

Wednesday, November 20, 2013

Var það gott karríermúv hjá Hjördísi systur minni að hætta á LSH og leita sér að vinnu sem kirkjuorganisti í Kópavogi? Ekki viss um það, en þegar hún tekur ákvarðanir (sem hún gerir ekki fyrr en í fulla hnefana) þýðir ekkert að standa í vegi. Það var því sjálfsagt að verða við bón hennar um að hringja í Dagnýju Pétursdóttur, vinkonu mína úr menntaskóla og kantor í Suður-Þingeyjarsýslu, og spyrja ráða. Hún mátti síðan ekkert vera að því að aðstoða okkur, enda önnum kafin við að undirbúa fyrsta kirkjuorganista-idolið. Þar með fjaraði undan áhuga Hjördísar, draumurinn búinn, og við bæði komin til vinnu okkar eins og venjulega.

Monday, November 11, 2013

Loksins loksins fékk ég tækifæri til að gera útvarpsauglýsingu byggða á meistarastykki Oxsmár, Kitty klára! Ég lagði líf og sál í verkefnið og var enn að fá hugmyndir þar sem ég stóð við míkrófóninn til að taka upp skilaboðin sem áttu að nýta snilld lagsins til að koma boðskapnum á framfæri. Ég lét óþolinmæði upptökustjórans ekkert pirra mig, en það var enginn annar en æskuvinur minn og Marillion-aðdáandi nr. eitt, Jóhannes Sigmundsson, þarna að stíga sín fyrstu skref í bransanum að ég tel. Ekki fylgdi sögunni hvað átti að auglýsa með þessari aðferð, en fullvíst má telja að viðkomandi vara eða þjónusta hefur slegið í gegn í draumheimum eftir að ég yfirgaf þá núna í morgunsárið.

Sunday, October 6, 2013

Ég segi ekki að það hafi verið góð hugmynd hjá Leikfélagi Akureyrar að fá mig til að endurtaka hlutverk Kristjáns í Peysufatadeginum sem ég lék í í LMA í denn, þó ég kynni vissulega rulluna (nokkurnvegin) og ætti ennþá búninginn (eða gæti impróvíserað hann). Sérstaklega í ljósi þess að ég komst ekki á neinar æfingar og missti að auki af fyrstu tveimur sýningunum vegna anna við tónleikahald. Góðu heilli var mín helsta mótleikkona Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem er alvön að leika á móti sjálfri sér, og fór létt með að vera bæði Sigga og Kristján á frumsýningunni (skilst reyndar að hún hafi byggt sinn Kristján á henni Ilse, sem hún lék svo eftirminnilega í Kollu og stöðumælavörðunum hjá Leikfélagi Kópavogs back in the day). Vildi bara að ég hefði séð það, en því miður fór draumurinn allur í að brjótast í gegnum skafla að baksviðsdyrunum og leita að sokkaböndum fyrir búninginn.

Thursday, September 26, 2013

Ánægjulegt að hinn íhaldssami Menntaskóli á Akureyri sé búinn að breyta fyrirkomulagi lokaprófa og byggja þar á frábæru módeli Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga. Á lokadegi er nemendum skipt í hópa þvert á námsbrautir og áfanga og látnir vinna saman að verkefnum. Í mínum hóp voru m.a. Sævar Sigurgeirsson og Guðfinna Kristófersdóttir en ekki þekkti ég alla enda skólinn stór. Í okkar hlut kom að vinna stuttan leikgjörning og byggja á Dylan-slagaranum It's allright ma (I´m only bleeding). Sævar var auðvitað settur í að gera nýjan íslenskan texta og dró sig í hlé inn í bíl (prófið fór fram í Kjarnaskógi), ég fór að æfa mig á gítar og Guffa og kó að undirbúa lábragðsleikinn. Ég vaknaði reyndar áður en prófið sjálft fór fram, en geri ráð fyrir að við höfum öll útskrifast.

Monday, September 2, 2013

Var á fræðslufundi hjá Rithöfundasambandinu. Þar hélt Unnur Guttormsdóttir erindi um nauðsynlegan búnað í upplestrarferðum ljóðskálda. Hún brýndi mjög fyrir mönnum að vanda fatavalið, enda þyrfti oft að stökkva af vörubílspöllum á vegum úti. Einnig vildi Unnur meina að nauðsynlegt væri að vera ávallt með þrjá svefnpoka. Því miður vaknaði ég áður en fyrirspurnartíminn hófst, en hún hefur örugglega verið spurð út í þetta með pokana.

Sunday, August 11, 2013

Í nótt stóðum við fyrir utan Samkomuhúsið á Akureyri, ég og Adda Hreiðars og biðum þess að sýningu lyki. Við vorum öðrum þræði að hafa gætur á bíl fyrir Sverri Pál Erlendsson, sem var á sýningunni. Skyndilega birtist stressaður sýningarstjóri og bað mig að redda sér vekjaraklukku sem átti að nota í næsta atriði. Ég fann tvær í bílnum og fékk honum aðra þeirra. Litlu síðar birtist Sverrir Páll og var kátur með að hafa óafvitandi bjargað sýningunni. Hann keypti af mér tvo geisladiska, Ylfu Mist og Hugleiksdiskinn Sálir Jónanna ganga aftur, og keyrði upp á brekku með þann síðarnefnda í botni. Vaknaði við þá ljúfu tóna.