Hvílíkt lán að RÚV skuli eiga upptöku af hinni rómuðu uppfærslu Þjóðleikhússins á Fiðlaranum á þakinu frá 1969! Róbert og félagar standa svo sannarlega undir nostalgískum væntingunum. Það sama verður kannski ekki sagt um propsdeildina. Óttalega metnaðarlaust að brúka notuð umslög með merki leikhússins í sýningunni, og það án þess að gefa þeim einu sinni kírillískar eða jiddískar áletranir. Og já, bréfasendingar eru fyrirferðarmeiri í Fiðlaranum en ykkur minnti. Steininn tók þó úr þegar Tevye fór að gefa kúnni og veiddi töðuna upp úr stórum bréfpoka sem búinn var til úr tveimur svona umslögum, samlímdum á köntunum með hvítu málningarteipi! Það hefði verið fróðlegt að lesa áletranirnar á þessum „leikmunum“, en af því gat ekki orðið. Ég sef ekki með gleraugu.