Tuesday, January 14, 2014

Heldur vorum við kvíðnir í salnum í litla Félagsheimilinu í Öxnadal: Ármann, Sævar og ég. Vissum að leikritið sem leikhópur úr Svarfaðardalnum var að fara að frumsýna var í rýrara lagi.


Þegar sýningin hófst kom svo í ljós að þar hafði jafnvel verið kastað enn hraustlegar til höndunum í uppfærslunni sjálfri og stóð ekki steinn yfir steini, þrátt fyrir kanónur á borð við Þráin Karlsson við leikstjórapúltið og Herdísi Rögnu og Erling Sigurðarson frænda minn á sviðinu. Verst var þó að ekkert þak var á húsinu og því engin leið að koma við ljósum til að fela hörmungina. Enda var sýningu hætt snarlega í hléi og gripum við Ljótu hálfvitarnir tækifærið, stilltum upp græjunum okkar og hófum upptöku á næstu plötu, með góðan liðsauka: Gunnar greifatrommara á banjó.


Tæknilegir örðugleikar stöðvuðu þá vinnu og því brast á frumsýningarpartí, en þegar Ingunn Ásdísardóttir ákvað að halda ræðu yfir mér um að Sævar vinur minn væri liðónýtur hagyrðingur sem skildi ekki lögmál stuðlasetningar var fáránleikinn kominn yfir öll mörk og tímabært að vakna til þessa lognkyrra miðvikudags.