Tuesday, March 17, 2015

Þröngt á þingi í sminkherbergi RÚV og handagangur í öskjunni. Fyrir utan okkur Kiljufólk er þarna hópur „amatöra“ að fara að leika í sjónvarpsleikriti, og í tilefni öskudagsins eru allir í afkáralegum búningum, einnig við „bókmenntaelítan“. Mér finnst þetta heldur fyrir neðan mína virðingu allt saman, en er þó afar kátur. Ég hafði nefnilega fundið á glámbekk eintak af Samvinnunni frá 1977 og þar í svona grín-heimskort þar sem heimshlutarnir eru skírðir upp á nýtt frá „lókal“ sjónarhóli. Og viti menn: Rússland og Pólland hafa fengið nafnið „K.Þ. – Finnur Kristjánsson“ til heiðurs afa mínum kaupfélagsstjóranum, væntanlega vegna viðskipta við austurblokkina. Ég  hlakka mjög til að veifa þessu framan í Egil Helgason, grúskarann þann, en hafði lagt blaðið frá mér augnablik og þegar ég seilist í það aftur er ein leikkonan búin að taka það, snýta sér í það og henda því. Verst að tímarit.is virkar ekki í draumheimum.

No comments:

Post a Comment