Saturday, March 25, 2017

25. mars 2017

Það er mikil drift og metnaður í æskulýðsstarfi Steinþórs Jasonarsonar í Keflavík og þegar hann kallaði okkur leiklistartengdustu Hálfvitana til liðs með námskeiðahald vorum við fýr og flamme. Kennslan fór fram eftir einhverri japanskri teóríu sem Steinþór hafði pikkað upp, og við allir því fagursminkaðir að hætti samúræja, sem fór vel í okkur.

Meðan við bárum á okkur farðann sungum við tónsetningu Jóns Leifs á „Vertu Guð faðir“ til að vega upp á móti exótíkinni. Ég hafði orð á því við Baldur hvað þetta er ægifagurt lag, en hann lét sér fátt um finnast. Oddur hinsvegar ákvað að kynna sig fyrir námskeiðsfólki með því að segja gamansögur um það hvað unglingar eru hörmulega illa til leiks fallnir, með miklu og bráðfyndnu látbragði. Enda voru fljótlega engir til staðar aðrir en gamalmenni.

Mögulega var það samt líka vegna þess að skólastofan reyndist vera full af snjó og nú þurfti að moka, sem ellibelgjunum þótti bara gaman. Meðan við djöfluðumst sagði einn öldungurinn mér að nýlega hefði hann stýrt fundi hjá eldri Sjálfstæðismönnum í plássinu og glaðst mjög yfir að gömlu skotgrafirnar væru mikið til orðnar ofanímokaðar og grónar. Þannig hefðu fundarmenn verið sammála um að Salka Valka væri fín bók og þá sérstaklega Arnaldur.

Þetta þóttu mér ekki merkileg tíðindi, enda væri þessi hryggleysingi draumaandstæðingur hægriaflanna, og Halldór hefði verið grillaður klukkustundum saman af Austur-Þýskum Marxfræðingum fyrir hvað Arnaldur var hörmulegur kommi. Svo hátt hnussaði ég að ég vaknaði, klukkustund á undan klukkunni.

Í dag eigum við Hulda stefnumót í Guernica.

No comments:

Post a Comment