„Hybris“ kölluðu Grikkirnir gömlu það þegar fólk færist of mikið í fang. Þessi ofurlistræna og súpermetnaðarfulla bíómynd sem Þórunn Guðmundsdóttir ákvað að gera er sennilega dæmi um það. Fríða Bonnie Andersen stóð sig reyndar vel að vanda í lykilhlutverki, en þetta kom ekki almennilega heim og saman, og svo voru veitingarnar í frumsýningarpartíinu skornar við nögl og ekki nóg af diskum. Mig langaði ekkert að tala við vinkonur mínar og þurfa að tala mig í kringum vonbrigðin, en þá birtist ókunnug kona sem greinilega þekkti mig, kynnti sig sem Nínu og segist ætla að tala við mig allt partíið, enda þekki hún engan annan. Það var ekki fyrr en hún byrjaði að sýna sirkusfimleika með nokkrum félögum sínum sem ég fatta að þetta er gömul vinkona úr MA, og ætlaði svo sannarlega að spyrja hana spjörunum úr um hvað á daga hennar hefði drifið, en þá vakti dyrabjallan mig.
No comments:
Post a Comment