Saturday, February 25, 2023

 „Hybris“ kölluðu Grikkirnir gömlu það þegar fólk færist of mikið í fang. Þessi ofurlistræna og súpermetnaðarfulla bíómynd sem Þórunn Guðmundsdóttir ákvað að gera er sennilega dæmi um það. Fríða Bonnie Andersen stóð sig reyndar vel að vanda í lykilhlutverki, en þetta kom ekki almennilega heim og saman, og svo voru veitingarnar í frumsýningarpartíinu skornar við nögl og ekki nóg af diskum. Mig langaði ekkert að tala við vinkonur mínar og þurfa að tala mig í kringum vonbrigðin, en þá birtist ókunnug kona sem greinilega þekkti mig, kynnti sig sem Nínu og segist ætla að tala við mig allt partíið, enda þekki hún engan annan. Það var ekki fyrr en hún byrjaði að sýna sirkusfimleika með nokkrum félögum sínum sem ég fatta að þetta er gömul vinkona úr MA, og ætlaði svo sannarlega að spyrja hana spjörunum úr um hvað á daga hennar hefði drifið, en þá vakti dyrabjallan mig.

Saturday, March 25, 2017

25. mars 2017

Það er mikil drift og metnaður í æskulýðsstarfi Steinþórs Jasonarsonar í Keflavík og þegar hann kallaði okkur leiklistartengdustu Hálfvitana til liðs með námskeiðahald vorum við fýr og flamme. Kennslan fór fram eftir einhverri japanskri teóríu sem Steinþór hafði pikkað upp, og við allir því fagursminkaðir að hætti samúræja, sem fór vel í okkur.

Meðan við bárum á okkur farðann sungum við tónsetningu Jóns Leifs á „Vertu Guð faðir“ til að vega upp á móti exótíkinni. Ég hafði orð á því við Baldur hvað þetta er ægifagurt lag, en hann lét sér fátt um finnast. Oddur hinsvegar ákvað að kynna sig fyrir námskeiðsfólki með því að segja gamansögur um það hvað unglingar eru hörmulega illa til leiks fallnir, með miklu og bráðfyndnu látbragði. Enda voru fljótlega engir til staðar aðrir en gamalmenni.

Mögulega var það samt líka vegna þess að skólastofan reyndist vera full af snjó og nú þurfti að moka, sem ellibelgjunum þótti bara gaman. Meðan við djöfluðumst sagði einn öldungurinn mér að nýlega hefði hann stýrt fundi hjá eldri Sjálfstæðismönnum í plássinu og glaðst mjög yfir að gömlu skotgrafirnar væru mikið til orðnar ofanímokaðar og grónar. Þannig hefðu fundarmenn verið sammála um að Salka Valka væri fín bók og þá sérstaklega Arnaldur.

Þetta þóttu mér ekki merkileg tíðindi, enda væri þessi hryggleysingi draumaandstæðingur hægriaflanna, og Halldór hefði verið grillaður klukkustundum saman af Austur-Þýskum Marxfræðingum fyrir hvað Arnaldur var hörmulegur kommi. Svo hátt hnussaði ég að ég vaknaði, klukkustund á undan klukkunni.

Í dag eigum við Hulda stefnumót í Guernica.

Friday, November 25, 2016

Hulda var að koma heim frá útlöndum og hafði heldur betur sögur að segja. Aðallega frá flugferðinni heim þar sem sjálfur Gene Simmons var á vappi. Að sjálfsögðu slapp sá athyglissjúki skröggur í hljóðkerfið og skemmti farþegum með gamansögum af Ace að skandalísera. Já og svo reyndi Gene að eigna sér hugmyndina að baki einhverjum obskjúr haitískum trúarbrögðum, en það var nú allt frekar langsótt, sem vonlegt er. Við Þorleifur Arnarson skemmtum okkur vel yfir endursögn Huldu af þessum performans Kissbassaleikarans meðan við ösluðum snjó í torkennilegum undirgöngum á leið eitthvað sem ekki lá ljóst fyrir hvað var þegar föstudagurinn hófst formlega í boði vekjaraklukkunnar.

Monday, April 4, 2016

Hversu djörf var sú ákvörðun að fá mig til að semja nýjan einkennis- og hvatningarsöng í tilefni af EM í fótbolta? Sennilega skrítnasta hugmynd sem Eiður Arnarsson hefur fengið, síðan um árið þegar hann bað Ljótu hálfvitana að gera ábreiðuplötu með lögum Gylfa Ægissonar. Enda klúðraði ég pepplaginu glæsilega. Gott lag reyndar, en meira svona írónískt, enda fóru samfélagsmiðlar á hliðina og sökuðu mig um elítuhroka og almenn andstyggilegheit. Plebbar. En Eiður var sáttur, enda smekkmaður hinn mesti, á tónlist ef ekki á knattspyrnulið.

Hinsvegar gekk brösuglega að undirbúa frumflutning lagsins „læf“. Kassagítar Hálfvitanna,hin þrautseiga „Tía“, var loksins orðin of tjónuð og flutt í stóru hljóðfæraverslunina skýjum ofar. Úr varð að nota tækifærið og gefa Gums nýjan stálstrengjagítar í afmælisgjöf, sem síðan myndi nýtast bandinu. Þá kom sér vel að nýbúið var að breyta Ingvarsbúð í stóra og vel búna hljóðfæraverslun á tveimur hæðum og með ótal deildum. Þarna voru fagott og fiðlur upp um alla veggi, en minna bar á gíturum. Eftir langa leit fundust nokkrir klassískir undir borði, en bara einn þjóðlaga – heldur óálitlegur gripur sem gítarfróður kúnni hvíslaði að mér að væri ómerkileg verksmiðjuframleiðsla frá Lúxemborg. Við að heyra það orð hrökk ég upp, lái mér hver sem vill.

Friday, November 20, 2015

Þessar leiklistarhátíðir eru allar eins. Hátíðardinnerinn á þessari, í Eistlandi, skar sig ekkert að ráði frá öðrum utan tvennt: Íslenska hópnum hafði verið vísað til sætis í ógurlegum hvítum lúxusbíl, sem aukinheldur stóð yst í salnum þar sem gólfið byrjaði að halla í átt til útidyranna og að sjálfsögðu fórum við eina salibunu út á götu. Og svo voru þarna ókjörin öll af nótnabókum og söngheftum, þar á meðal helstu lög Bubba Morthens. Svo við gripum gítara og mandólín og hófum upp raust okkar. Partíið leystist svo upp þegar séra Oddur sýndi á sér fararsnið og við kvöddum hann með hinum ódauðlegu línum:

Það er enginn fiskur í dag,
þér getið farið heim og slappað af.
Tekið yður sturtu eða farið í bað.

Við þessar þéringar vaknaði ég.

Saturday, August 8, 2015

Það væri örugglega gaman að skoða sig um í Santiago, höfuðborg Chile, ef hún væri ekki svona fáránlega illa skipulögð. Vorum við Guðrún Eysteinsdóttir​ þó með hinn spænskumælandi Guðmund Erlingsson​ með okkur til að spyrja til vegar. Engu að síður vorum við búin að villast um ranghala í tveimur yfirgefnum barnaskólum áður en við fundum eitthvað lífsmark. Sem fólst reyndar einungis í risastórri jólavörubúð. Vissulega hefði verið fyndið að koma heim frá Suður-Ameríku með jólaskraut, en það var bara svo helvíti ljótt allt, svo við snerum tómhent til skips. Það var mun auðveldara að fá leiðbeiningar til baka. Við þurftum bara að teikna mynd af farkostinum – víkingaskipi með sjóræningjafána – og allir vissu hvað við var átt. Það er semsagt líka þannig í draumheimum.

Saturday, May 23, 2015

Hvílíkt lán að RÚV skuli eiga upptöku af hinni rómuðu uppfærslu Þjóðleikhússins á Fiðlaranum á þakinu frá 1969! Róbert og félagar standa svo sannarlega undir nostalgískum væntingunum. Það sama verður kannski ekki sagt um propsdeildina. Óttalega metnaðarlaust að brúka notuð umslög með merki leikhússins í sýningunni, og það án þess að gefa þeim einu sinni kírillískar eða jiddískar áletranir. Og já, bréfasendingar eru fyrirferðarmeiri í Fiðlaranum en ykkur minnti. Steininn tók þó úr þegar Tevye fór að gefa kúnni og veiddi töðuna upp úr stórum bréfpoka sem búinn var til úr tveimur svona umslögum, samlímdum á köntunum með hvítu málningarteipi! Það hefði verið fróðlegt að lesa áletranirnar á þessum „leikmunum“, en af því gat ekki orðið. Ég sef ekki með gleraugu.