Friday, May 23, 2014

Það kom ekki mikið á óvart að það væri stappfullt á fyrirlestri sjálfs Nóbelsskáldsins í stofu 101 í Odda. Skrítnara var þó hvað margir voru sífellt að gjamma fram í og biðja hann um að herma eftir allskyns einkennilegu fólki sem HKL (og þá væntanlega biðjendurnir) þekktu vel. Halldór tók misvel í þetta, en þegar Guðrún Halla Jónsdóttir, sem hafði sig mjög í frammi, bað hann um að bregða sér í gerfi Guðrúnar frá Stað (sem ég veit ekkert hver er) þá slengdi kallinn fram vísu með raddblæ kerlingar við mikinn fögnuð.

Vísan var afleit sem slík og engin leið að muna hana orðrétt í draumi, en henni á Staðar-Gunna að hafa kastað fram þegar gárungar í sveitinni héldu fram að hjartað í henni væri á vitlausum stað, út frá einhverjum fæðingarbletti skildist mér. Inntakið var að hjartað væri ca. metra frá jörðu þegar hún tæki upp rófur. Hálfgert bull, en pínu póetískt, fannst mér þegar ég vaknaði. Halla var a.m.k kát og Halldór stoltur af hermikrákuhæfileikum sínum.

Enda má segja að þjóðin eigi það nú alveg inni hjá honum að hann fái að skopast með talanda fólks.

No comments:

Post a Comment